Við hófum árið af krafti og kynntum til leiks álagsstýringarverkefnið Hlöðum betur. Markmiðið er að kanna hleðsluhegðun fólks og hvernig hægt er að hvetja fólk til að hlaða bílana sína utan álagstíma.
Úrvalsdeildin í rafíþróttum fékk nýtt nafn í upphafi árs þegar Ljósleiðaradeildin var kynnt til leiks en um þriggja ára samning er að ræða. Ljósleiðarinn hefur og mun áfram styðja þétt við bakið á rafíþróttum sem eru á mikilli siglingu.
Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix hlaut hvatningarverðlaun FKA sem hún áleit mikla hvatningu fyrir starfsfólk fyrirtækisins.
Snemma árs fékk Orka náttúrunnar þær ánægjulegu fréttir að viðskiptavinir fyrirtæksins eru þeir ánægðustu af viðskiptavinum allra raforkusala á Íslandi þriðja árið í röð.
Bandaríska orkumálaráðuneytið ákvað að veita 2,2 milljónum dala í nýsköpunarverkefni með það að markmiði að þróa áfram aðferðir til kolefnisförgunar með því að steinrenna koldíoxíði (CO2) í bergi í Tamarack í Minnesota-fylki í Bandaríkjunum. Carbfix var hluti af því.
Benedikt Kjartan Magnússon var ráðinn framkvæmdastjóri fjármála en hann kom til okkar frá KPMG þar sem hann hafði starfað frá árinu 2001.
Fyrsta útboð Ljósleiðarans á grænum skuldabréfum fer fram og ber góðan árangur. Skuldabréfaflokkurinn er síðan tekinn til skráningar á Aðalmarkað Nasdaq Iceland í maí.
Carbfix ásamt samstarfsaðilum sínum vann tvenn Milestone verðlaun í fyrri umferð XPRIZE Carbon Removal verðlaunanna, sem Elon Musk og Musk Foundation standa að. Gríðarlegur heiður en yfir 1.100 umsóknir bárust í keppnina.
Við héldum glæsilegan Ársfund OR í byrjun maí undir yfirskriftinni „Vertu hluti af lausninni.“ Um nokkurskonar sjónvarpsþátt var að ræða sem sýndur var í beinu streymi og á sjónvarpsstöðinni Hringbraut undir stjórn fjölmiðlakonunnar reyndu Elínar Hirst.
Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði ógilt úrskurð kærunefndar útboðsmála frá því í júní 20021 þess efnis að Orka náttúrunnar þyrfti að loka Hverfahleðslum í Reyjavík. Allt opið og allir glaðir.
Nýtt lofthreinsiver Climeworks á Hellisheiði, í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar, mun tífalda núverandi afköst föngunar og förgunar á koldíoxíði (CO2) úr andrúmslofti á svæðinu. Fyrir er Orca, lofthreinsiver Climeworks, sem tók til starfa síðastliðið haust og var hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum.
Í lok júní sömdu Ljósleiðarinn og utanríkisráðuneytið um afnot Ljósleiðarans af tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins, sem liggur hringinn í kringum Ísland og til Vestfjarða.
Carbfix hlaut styrk sem nemur um 16 milljörðum íslenskra króna úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins til uppbyggingar á móttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda Terminal, Sódastöðinni, í Straumsvík. Miðstöðin verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum.
Í sumar sögðu Veitur frá góðri stöðu vatnsborða lághitasvæða höfuðborgarsvæðisins sem mátti skýra af mikilli og góðri hvíld. Sú hvíld kom sér vel í mestu kuldaköstunum yfir vetrarmánuðina.
Carbfix hóf tilraunir með að nota sjó til að binda CO2 í jarðlögum neðanjarðar. Borholan sem notuð var í þessu skyni er í Helguvík í Reykjanesbæ.
Okkar fólk tók á móti hvorki fleiri né færri en fjórum forsetum í Hellisheiðarvirkjun. Um var að ræða forseta Eystrasaltsríkjanna sem voru hér á landi í opinberri heimsókn forseta íslands. Bjarni Bjarnason forstjóri tók á móti hópnum og sérfræðingar úr samstæðunni fræddi þessa gesti okkar.
Í byrjun september tilkynntu Sýn hf. og Ljósleiðarinn um samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála samninga sem lúta að sölu á stofnneti Sýnar og þjónustusamningi til tólf ára á milli félaganna. Þessi samningur var síðan staðfestur undir lok árs.
Í september fóru Veitur í miklar framkvæmdir við hreinsistöð skólps við Klettagarða. Endurnýja þurfti búnað svo auka mætti rekstraröryggi stöðvarinnar.
Bjarni Bjarnason forstjóri OR tilkynnti í lok september að hann hyggist láta af störfum frá og með 1. mars 2023, nákvæmlega 12 árum eftir að hann settist í stól forstjóra.
OR úthlutaði hátt í 100 milljón í fyrstu úthlutun úr Vísindasjóði OR. Auglýst hafði verið eftir umsóknum á vormánuðum og alls bárust 49 umsóknir. Ákveðið var að veita 17 styrki þetta árið og var 8 verkefnum stýrt af konum og 9 körlum.
ON hlaut Jafnvægisvog FKA þriðja árið í röð í október. Veitur og Orkuveita Reykjavíkur hlutu hana einnig 2022.
ON tók þátt í spennandi verkefni í nýju hverfi í Garðabæ þar sem hverfahleðslur voru settar upp við bílastæði sem öll eru ofanjarðar í hverfinu og sameiginleg sem þannig eykur samnýtingu.
Ljósleiðarinn hélt áfram því metnaðarfulla verkefni sínu að koma sem flestum landsmönnum í besta mögulega samband og í lok nóvember voru öll heimili og fyrirtæki á Stokkseyri tengd.
Vel yfir hundrað manns mættu í fráveitugöngu um miðborg Reykjavíkur með Guðjóni Friðrikssyni í tilefni útgáfu bókarinnar Cloacinu sem kom út á síðasta ári.
Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbær og Rio Tinto á Íslandi undirrituðu í lok árs viljayfirlýsingu um uppbyggingu kolefnismóttöku- og förgunarstöðvar í Straumsvík undir heitinu Coda Terminal. Með verkefninu er lagður grunnur að nýrri atvinnugrein hérlendis sem byggir á íslensku hugviti og getur orðið að mikilvægri útflutningsgrein auk þess að styðja við loftslagsmarkmið Íslands.
Mikið mæddi á hitaveitunni í lok árs og í desember féll hvert rennslismetið á heitu vatni enda aldrei fleiri íbúðir þarfnast hitunar í svo miklum kulda.
Í lok árs leit síðan ný stjórn OR dagsins ljós og tekur Gylfi Magnússon við formennsku af Brynhildi Davíðsdóttur sem ekki gaf kost á sér áfram.
ON og svissneska orkufyrirtækið Swiss Green Gas International Ltd. kynntu samkomulag um frumhönnun á mögulegri viðbót við lofthreinistöðina Steingerði við Hellisheiðarvirkjun í lok árs.
Í september bauð ON rekstrareiningu til sölu sem veitt hefur sveitarfélögum og fleirum ýmsa þjónustu vega götulýsingar. Ákveðið var að fara í opið söluferli og var á endanum samið við fyrirtækið Ljóstvista.