U1 Losun gróðurhúsa­lofttegunda

Loftslagsmarkmið

Samstæða OR stefnir á kolefnishlutleysi árið 2030.

OR samstæðan hefur valið árið 2016 sem viðmiðunarár fyrir losun gróðurhúsalofttegunda, þar sem þetta ár er dæmigert fyrir losunarprófíl samstæðunnar og hjálpar til við að sýna metnað fyrirtækisins í þessa veru. Ennfremur tryggir þetta val samræmi við bestu starfsvenjur í reikningsskilum vegna gróðurhúsalofttegunda.

Árið 2022 jókst losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðu OR og vóg þyngst að uppitími lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun var minni en árið 2021. Hlutfallsleg föngun og binding koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun í berg var um 26% af útblæstri virkjunarinnar, sem er minnkun frá því árið 2021. Raf- og metanvæðing bílaflota fyrirtækisins skiptir einnig miklu máli og að Veitur vinna að verkefnum til að bæta viðnámsþrótt veitukerfa vegna loftslagsvár, sjá nánar í viðauka.

Losun vegna ferða starfsfólks í og úr vinnu og vegna flugferða starfsfólks hefur aukist í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Um 39%  starfsfólks hefur gert  fjarvinnusamning við samstæðuna þannig að unnið er heiman frá einn til tvo daga í viku og hefur það dregið úr losun. Flugferðir hafa aukist verulega í kjölfar faraldursins, sjá nánar í viðauka.

OR hefur keypt vottaðar losunarheimildir í gegnum loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Heimildirnar eru nýttar til að kolefnisjafna losun frá bílaflota OR, losun frá flugi vegna vinnuferða starfsfólks, losun vegna ferða í og úr vinnu ásamt hluta af annarri losun fyrirtækisins. Verkefnið sem OR styrkir árið 2022 felst í að bæta eldunaraðstöðu í Malaví sem minnkar losun gróðurhúsalofttegunda, bætir loftgæði og stuðlar að bættri heilsu kvenna og barna.

Upprunaábyrgðir raforku hafa fylgt allri raforkunotkun samstæðun OR 2016 til 2022.

OR vinnur eftir áætlun um að Hellisheiðarvirkjun verði sporlaus árið 2025 og Nesjavellir árið 2030 sem þýðir að 95% koltvíoxíðs frá virkjununum verði fangað, bundið í berg eða hagnýtt.

Útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda eru í samræmi við staðalinn Greenhouse Gas Protocol – Corporate Accounting and Reporting Standard. OR hóf að vinna með Science Based Target Initative um vottun á loftslagsmarkmiðum samstæðunnar.

Bein og óbein losun samstæðu OR, binding með landbótum og kolefnisjöfnun, 2016-2030

Bein og óbein losun gróðurhúsalofttegunda

Árið 2022 var umfang 1 eða bein losun frá kjarnastarfsemi samstæðu OR rúmlega 49.000 tonn CO2 ígilda. Umfang 2 eða óbein losun vegna notkunar rafmagns og hita í kjarnastarfsemi samstæðu OR var engin því samstæðan framleiðir þá orku sem hún notar og er gerð grein fyrir losuninni í umfangi 1. Umfang 3, óbein losun í virðiskeðjunni, var um 1.900 tonn CO2 ígilda sem rekja má að mestu til eldsneytisnotkunar hjá verktökum í framkvæmdum og til úrgangs sem til fellur í fráveitukerfi Veitna. Í umfangi 3 er einnig horft til annars úrgangs í rekstri, flugferða starfsfólks og samgangna starfsfólks í og úr vinnu. Þetta eru ekki tæmandi upplýsingar um umfang 3 því ekki er tekið tillit til framleiðslu og flutnings aðfanga. Áfram var unnið að verkefni til að skoða þátt innkaupa í kolefnisspori samstæðu OR. Loftslagsmál hafa verið innleidd betur í innkaupastarfsemi samstæðunnar. Tekin hafa verið skref til þess að fá verktaka, birgja og framleiðendur til þess að upplýsa OR um kolefnisspor þeirra vara eða þjónustu sem verið er að kaupa ásamt því að veita fjárhagslega umbun fyrir umhverfisþætti eins og orkuskipti í vélum og tækjum og vottað umhverfisstjórnunarkerfi.

Kolefnisspor samstæðu OR árið 2022 var um 1% af heildarlosun á Íslandi miðað við heildarlosun 2020 (Umhverfisstofnun, 2022).

Bein og óbein losun samstæðu OR árið 2022