S5 Siðareglur birgja

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Ábyrg neysla

Það er stefna Orkuveitu Reykjavíkur að:

  • Beita opnum útboðum við kaup á vörum, þjónustu og verkframkvæmdum. Í útboðum verði tekið tillit til sjálfbærnisjónarmiða og að hagstæðasta tilboði sé tekið. Að öðrum kosti skal beita öðrum innkaupaaðferðum í samræmi við gildandi lög og reglur.
  • Innkaupareglur og innkaupaaðferðir séu skýrar og gagnsæjar.
  • Gæta jafnræðis, gagnsæis og hagkvæmni við öll innkaup.
  • Við innkaup og rekstur samninga skuli taka tillit til sjálfbærnisjónarmiða, s.s. gæða-, heilbrigðis-, mannréttinda-, umhverfis-, upplýsingaöryggis- og öryggissjónarmiða.

Siðareglur birgja

Skerpt var á sjálfbærnimarkmiðum þessarar stefnu árið 2020 og á árinu 2021 gaf fyrirtækið út siðareglur fyrir birgja OR, sem byggðar eru á innkaupastefnunni og tíu grundvallarreglum Global Compact, sem OR á aðild að. Samhliða var mótað verklag um viðbrögð OR við upplýsingum um frávik.

Kröfur samsvarandi siðareglunum er að finna í skilmálum allra útboða á vegum OR og markmið OR með útgáfu siðareglnanna er að þær sjálfbærnikröfur sem gerðar eru í útboðum nái einnig til smærri birgja.

Í árslok 2022 hafði 121 birgi staðfest að þeir hlíttu siðareglunum en að auki er nú bein tilvísun í siðreglurnar í öllum útboðum.

Á árinu 2022 voru 59% innkaupa samstæðunnar að undangengnu útboði. Samsvarandi hlutfall 2021 var 56% og 61% árið 2020.

We support Global Compact

Sjálfbærnimat á birgjum OR

Samhliða sjálfbærnimati Reitunar á Orkuveitu Reykjavíkur 2022 fékk fyrirtækið Reitun til að meta stöðu 16 birgja samstæðunnar út frá matslíkani fyrirtækisins. Úrtak birgjanna var hvorttveggja valið með tilliti til umfangs viðskipta og fjölbreytni vöru og þjónustu sem af þeim er keypt. Markmið matsins var á fá mælingu á það hvernig birgjar standi að vígi í sjálfbærnimálum.

Eins og myndritið að neðan ber með sér er dreifing frammistöðunnar mikil. Almennt stóðu stærri birgjar, jafnvel skráð félög, sig betur en þau smærri. Fámenn verktakafyrirtæki komu verst út úr matinu. Niðurstöðurnar hafa verið kynntar fyrir stjórn og stjórnendum innan samstæðu OR og ýmsar hugmyndir hafa kviknað um það hvernig megi styðja við sjálfbærni birgjanna og styrkja þar með virðiskeðju fyrirtækjanna í OR-samstæðunni.

Dreifing einkunna í sjálfbærnimati Reitunar 2022

Kolefnisspor keyptrar vöru og þjónustu

Við mat á tilboðum tekur OR tillit til fleiri þátta en verðs og í samræmi við vinnu OR að loftslagsmálum er sérstök áhersla á að kalla eftir kolefnisspori keyptrar vöru eða þjónustu. Nánar er fjallað um þá vinnu í kafla U1 Losun gróðurhúsa­lofttegunda.

Keðjuábyrgð og aðgerðir gegn kennitöluflakki

OR hefur innleitt keðjuábyrgð í verksamningum í því skyni að standa vörð um réttindi starfsfólks verktaka og undirverktaka þeirra. Verktakamat er byggt á frammistöðu þeirra í öryggismálum, umhverfismálum, gæðum verks og gagnaskilum. Ef frammistaða í verktakamati er óviðunandi er viðskiptum hætt tímabundið.

Ekkert tilvik var á árinu 2022 um að tilboði væri hafnað vegna gruns um kennitöluflakk.