S8 Sjálfbærniskýrsla

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Ábyrg neysla

Í þessari samþættu Ársskýrslu OR samstæðunnar er gerð grein fyrir stöðu og þróun þeirra sjálfbærniþátta sem er að finna í leiðbeiningum Nasdaq og Viðskiptaráðs auk þátta sem OR telur einnig mikilvæga. OR lítur því á Ársskýrslu hvers árs sem sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins.

Þessi skýrsla er gefin út samhliða ársreikningi Orkuveitu Reykjavíkur og hvorttveggja birt í kauphöll. Á vefjum fyrirtækjanna innan samstæðunnar er jafnframt að finna ýmsar upplýsingar um umhverfismál, fjármál og starfsmannamál sem uppfærðar eru oftar en árlega.

Auk Ársskýrslu skilar OR margvíslegum gögnum til opinberra eftirlitsaðila í samræmi við starfsleyfi fyrirtækjanna í samstæðunni. Þar eru umfangsmest ýmis gögn um auðlindanýtingu hvers árs. Með aðild að ýmsu samstarfi skilar OR einnig opinberum skýrslum um ýmsa sjálfbærniþætti starfseminnar. Þar má nefna:

  • Framvinduskýrslur vegna útgáfu grænna skuldabréfa
  • Skýrslur til Climate Disclosure Project
  • Framvinduskýrslur verkefna sem skráð hafa verið á vefinn heimsmarkmidin.is
  • Skýrslur til Global Compact

UFS áhættumat

Tvö matsfyrirtæki leggja mat á frammistöðu Orkuveitu Reykjavíkur hvað varðar umhverfis-, samfélags- og stjórnháttaþætti starfseminnar. Slíkt mat er hluti lánshæfismats Moody's og íslenskir fjárfestar hafa fengið matsfyrirtækið Reitun til að leggja slíkt mat á frammistöðu samstæðunnar.

Niðurstaða mats Reitunar árið 2022 var að „Orkuveita Reykjavíkur fær framúrskarandi einkunn í UFS mati Reitunar með 86 stig af 100 mögulegum, flokkur A3.“

Samfelld hækkun hefur verið á heildareinkunn OR í mati Reitunar frá árinu 2020. Milli áranna 2021 og 2022 hækkuðu einkunnir fyrir umhverfisþætti og stjórnarháttaþætti en lækkaði fyrir samfélagsþætti og má rekja það til aukinnar starfsmannaveltu á árinu 2021.

Matskýrslur Reitunar og Moody's eru viðfestar en á árinu 2022 var einungis gefin staðfesting á fyrra mati af hálfu Moody's.