Stjórnhættir OR eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum. Um meginstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur gilda lög nr. 136/2013. Á árinu 2014 endurnýjuðu eigendur fyrirtækisins sameignarsamning um starfsemina. Þá var einnig endurskoðuð eigendastefna. Í þeim er kveðið á um stjórnhætti. Við gerð þessara skjala, samþykkta fyrir dótturfélög OR og starfsreglur fyrir allar stjórnir, var tekið mið af þeim leiðbeiningum sem Viðskiptaráð vann í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Nasdaq.
OR telur að stjórnarhættir fyrirtækisins uppfylli leiðbeiningarnar.
Á árinu 2022 samþykkti Reykjavíkurborg, stærsti eigandi Orkuveitu Reykjavíkur, almenna eigandastefnu sem tekur mið af leiðbeiningum OECD um stjórnhætti fyrirtækja í opinberri eigu. Með stefnunni er mörkuð stefna um eignarhald Reykjavíkurborgar ásamt því að skerpa á meðferð eignarhluta í stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Reykjavíkurborg hefur forystu um innleiðingu stefnu sinnar gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur.
Veitur reka rafveitur, hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur sem flestar eru með sérleyfi. Orka náttúrunnar vinnur rafmagn og heitt vatn í virkjunum og er sölufyrirtæki rafmagns, Ljósleiðarinn rekur ljósleiðaranet til fyrirtækja og heimila og Carbfix er sprotafyrirtæki til útbreiðslu samnefndrar aðferðar til kolefnisförgunar. Móðurfélagið - Orkuveita Reykjavíkur - er þjónandi móðurfélag í samstæðunni sem styður við starfsemi dótturfélaganna með því að veita ýmsa miðlæga þjónustu.