Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Menntun fyrir alla Líf á landi

Aðrennslispípa Rafstöðvarinnar við Elliðaár, sem endurnýjuð var árið 1978, brast í þriðja sinn árið 2014. Tvísýnt var um hvort raforkuvinnsla hæfist í stöðinni að nýju. Á árinu 2020 var formlega tekin sú ákvörðun að ekki yrði unnið rafmagn í stöðinni um fyrirséða framtíð og um haustið var vatni hleypt varanlega úr inntakslóni virkjunarinnar. Sú ráðstöfun var umdeild.

Elliðaárstöð

Merkustu mannvirki Rafstöðvarinnar við Elliðaár eru að ganga í endurnýjun lífdaga undir heitinu Elliðaárstöð. Þar er á ferðinni ný upplifun í Elliðaárdal þar sem börn og fullorðnir fræðast um sögu og vísindi í lifandi leik. Talsvert hefur þegar verið byggt upp og svæðið endurmótað til að þjóna nýju hlutverki. Á árinu 2022 sótti fjölda hópa Elliðaárstöð heim til fræðslu, heilsubótar og upplifunar og nokkrir áberandi viðburðir voru haldnir í samstarfi við Elliðaárstöð á árinu. Gestir voru um 2.000 talsins á 50 viðburðum.

Elliðaárstöð

Orkuveita Reykjavíkur efndi í upphafi árs 2019 til samkeppni um sögu- og tæknisýningu á rafstöðvarreitnum til að fagna 100 ára afmæli Elliðaárstöðvar. Hönnunarhópurinn Terta sigraði samkeppnina og framkvæmdir hófust í október 2020.

Endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal

Þetta er heiti verkefnis sem hleypt var af stokkunum innan Orkuveitu Reykjavíkur árið 2021 og síðla árs 2022 var það endurmótað og er nú samstarfsverkefni OR og Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.

Markmið verkefnisins er, af hálfu OR, að fá samþykkta lögboðna niðurlagningaráætlun Rafstöðvarinnar og af hálfu Reykjavíkurborgar að áætlunin endurspeglist í deiliskipulagi dalsins. Áhersla er lögð á öfluga upplýsingagjöf í verkefninu en mistök voru gerð við hana af hálfu OR þegar hleypt var úr Árbæjarlóni haustið 2020.

Undir merkjum verkefnisins hefur verið aflað margvíslegra gagna um áhrif tæmingar lónsins og um virkjanamannvirkin í dalnum, ekki síst Árbæjarstíflu.

Mikil velgengni laxins

Árbæjarlón hafði verið fyllt og tæmt á víxl að hausti og vori þar til það var tæmt 2020. Rannsóknir á lífríkinu síðan benda eindregið til að sú aðgerð að hætta að skapa slíkan óstöðugleika í lífríki ánna hafi þegar komið löxum í ánni til góða. Haustið 2022 komu út áfangaskýrslur hvorttveggja vegna lífs laxa og vatnafugla og báru þessu eindregið vitni. Þá kom á árinu betur í ljós árangur vegna uppgræðslu fyrri lónsbotns, sem sjá má á myndunum að neðan. Þar var beitt aðferðum þróuðum af landgræðslu- og uppgræðslustjóra Orku náttúrunnar við endurheimt staðargróðurs.

lónbotn Árbæjarlóns

Lónbotn Árbæjarlóns haustið 2020 og haustið 2022.