Landbætur á athafnasvæðum OR og líffræðileg fjölbreytni

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Líf á landi

Samstæða OR hefur umsjón með tæplega 19.000 hekturum lands og eru tæpir 16.000 hektarar innan verndarsvæða. Það eru vatnsverndarsvæði, friðlýst svæði, svæði á náttúruminjaskrá og svæði sem lúta sérstakri vernd. Í viðauka er birtur listi yfir verndarsvæði og tegundir fugla og plantna á válista sem hafa  búsvæði á athafnasvæðum OR. Áhersla er lögð á verndun og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa eins og kostur er.

Frágangur og umgengni

Lögð er áhersla á góða umgengni, frágang jafnóðum í verkum eins og kostur er, endurheimt náttúrlegs umhverfis og minnkun sjónrænna áhrifa á virkjanasvæðum Orku náttúrunnar og athafnasvæðum Veitna, Carbfix, Ljósleiðarans og OR. Reglulega er skerpt á verklagi og fræðslu til að tryggja enn betri umgengni starfsfólks og verktaka, meðal annars á verndarsvæðum, sjá verndarsvæði í kortasjá og myndbönd í viðauka. Gróðurþekju er haldið til haga í framkvæmdum á grónu landi og hún nýtt til endurheimtar staðargróðurs vegna rasks. Þetta er gert í samvinnu við leyfisveitendur og í samræmi við markmið samstæðu OR.

Haustið 2022 var haldin vinnustofa um náttúrumiðaðar lausnir fyrir vatnavistkerfi í samstarfi Orku náttúrunnar við Umhverfisstofnun, Verkís, Landbúnaðarháskóla Íslands og Veitur. Beiting náttúrumiðaðra lausna við Andakílsárvirkjun og við Árbæjarkvísl var þar í brennidepli. Það felast mikil samlegðaráhrif í því að ráðast samtímis í endurheimt náttúrugæða, í aðgerðir sem hjálpa okkur að aðlagast loftslagsbreytingum og í því að innleiða mótvægisaðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta hefur OR samstæðan sýnt í verki undanfarin ár með því að:

  • Færa löskuð vistkerfi til sem því næst fyrra horfs t.d. við Andakílsá í Borgarfirði, Árbæjarkvísl í Reykjavík og á Hengilssvæðinu
  • Ráðast í blágrænar ofanvatnslausnir í þéttbýli í samvinnu við sveitarfélög

Ávinningurinn er mun meiri en eingöngu fyrir náttúruna því svona aðgerðir skila sér einnig í félagslegri, efnahagslegri og heilsufarslegri vellíðan.

Bakkavarnir við Andakíslá 2021 og 2022

Bakkavarnir hófust við Andakílsá árið 2021 og lauk 2022. Trjábolum með rótum, grjóti og möl var komið fyrir í bakkanum til að styrkja hann og gróðurþekjan sem fyrir var lögð aftur yfir. Víðir og birki voru gróðursett í bakkann til að styrkja hann enn frekar.

Landgræðsla og skógrækt

Orka náttúrunnar gróðursetti um 9.000 birki og reynitré í um 4 hektara af landi í nágrenni Nesjavallavirkjunar árið 2022 og tæplega 8 hektarar af landi voru græddir upp með staðargróðri á rofsvæðum utan framkvæmdasvæða. Þetta er í samræmi við stefnu Orku náttúrunnar um stækkun landgræðslusvæða og skógrækt með innlendum trjátegundum.

Gönguleiðir á Hengli

OR hefur umsjón með um 120 km af merktum gönguleiðum á Hengilssvæðinu síðastliðin 30 ár eða frá gangsetningu Nesjavallavirkjunar. Fjöldi gesta heimsækir svæðið sem er vinsælt til útivistar allt árið. Sumarið 2022 var lögð áhersla á að lagfæra fræðsluleiðina umhverfis Nesjavallavirkjun og verður haldið  áfram með þá vinnu sumarið 2023.

Lífríki í Andakílsá

Lífríki í Andakílsá hefur náð sér á strik eftir að mikill aur barst í ána við ástandsskoðun á inntaksstíflu Andakílsárvirkjunar í maí 2017. Tæplega 350 laxar veiddust þar sumarið 2022 sem er góð veiði miðað við aðrar laxveiðiár í nágrenninu. Um 20.000 seiðum var sleppt í ána árið 2022 og 15 þúsund laxaseiði voru sett í klak. Orka náttúrunnar hefur tekið þetta verkefni föstum tökum.

Áfram var unnið að bakkavörnum við Andakílsá árið 2022.

Í kjölfar áhættumats sem unnið var árið 2021 vegna fyrirhugaðrar hreinsunar aurs úr inntakslóni virkjunarinnar er áætlað að endurbæta stíflumannvirki og hreinsa upp úr lóninu. Unnið er að öflun leyfa.

Vatnsborð Skorradalsvatns og rennsli í Andakílsá

Vatnshæð Skorradalsvatns fór yfir viðmiðunarmörk Orku náttúrunnar í lok mars árið 2022 vegna mikilla leysinga og vatnavaxta. Vegna langvarandi frostakafla og frosthörku í lok árs 2022 var lítið vatnsinnstreymi í vatnið og fór vatnshæðin undir viðmiðunarmörk fyrirtækisins, sjá viðauka. Samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar lækkaði Orka náttúrunnar lágmarksrennsli í Andakílsá neðan virkjunar á meðan á frostakaflanum stóð til að draga úr lækkun Skorradalsvatns og var rennsli úr Skorradalsvatni til virkjunar og Andakílsár komið niður í 0,7 rúmmetra. Líkur eru á að þetta ástand muni bæði hafa áhrif á vistkerfi Skorradalsvatns og Andakílsár. Stefnt er að því að því að fá Hafrannsóknastofnun til að annast rannsóknir og vöktun á áhrifum þessa langvarandi frostakafla á lífríki vatnsins og árinnar árið.

Vatnsborð í Elliðavatni

Í tengslum við umfangsmikla lagnavinnu Veitna neðarlega í farvegi Elliðaánna var opnað fyrir lokur í Elliðavatnsstíflu í febrúar 2020 sem varð til þess að vatnshæð fór undir viðmiðunarmörk í tæpa viku. Árið 2022 fóru fram rannsóknir á lykilþáttum í lífríki og eðlis/efnafræði Elliðavatns. Markmið þeirra var að fá upplýsingar um árstíðabundnar breytingar á viðkomandi þáttum og geta þannig metið ástand Elliðavatns og greint ástæður breytinga sem hugsanlega verða, t.d. vegna utanaðkomandi álags. Hafrannsóknastofnun ásamt samstarfsaðlium vann rannsóknirnar og er áætlað að niðurstöður verði birtar snemma árs 2023.