Loftslagsmál

Árið 2022 hafa fyrirsagnir fréttamiðla einkennst af atburðum vegna loftslagshamfara. Árið 2022 komu öfgar í veðri áfram á óvart eins og illviðri í febrúar sem höfðu áhrif á orkuöflun og orkudreifingu þar sem  starfsfólk Orku náttúrunnar og Veitna þurfti að hafa hraðan á til að halda uppi þjónustu á veitusvæðinu. Nóvember var á meðal hlýjustu nóvembermánaða frá upphafi mælinga. Hins vegar var desember óvenju kaldur sem var krefjandi fyrir hitaveituna því aldrei hafa eins margar íbúðir verið tengdar við kerfi hitaveitunnar í eins miklum kulda.

Í árslok 2022 kom í ljós að tímabundinn samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda á alþjóðavísu vegna áhrifa COVID-19 faraldursins hefur því miður ekki dregið úr styrk gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Gleymum því þó ekki að þrátt fyrir allt var árið 2022 líka ár tímamóta í átt að betri framtíð. Öll félögin í samstæðu OR hafa til dæmis kortlagt og skráð allt að 50 loftslagsáhættur í rekstraráhættugrunn og árið 2023 verður þróuð aðgerðaráætlun vegna þessara áhætta sem skipta máli fyrir grunnþjónustu í samfélaginu, sjá nánar hér.

Áhersla samstæðu OR í loftslagsmálum:

  • Stefna á kolefnishlutleysi 2030, þar af sporlausa Hellisheiðarvirkjun 2025 og Nesjavallavirkjun 2030
  • Auka föngun og förgun koltvíoxíðs á lands- og heimsvísu
  • Vera drifkraftur í orkuskiptum í samgöngum
  • Þróa aðgerðir og viðnámsþrótt veitukerfa og virkjana til að aðlagast loftslagsbreytingum

Það er munur á aðgerðum vegna aðlögunar að loftslagsbreytingum og á mótvægisaðgerðum vegna þessara breytinga. Það er til dæmis aðlögun að breyttum aðstæðum þegar settir eru upp eldingavarar í kerfum Veitna og Orku náttúrunnar vegna aukinnar tíðni eldinga. Ráðist er í mótvægisaðgerð þegar Carbfix-lausninni er beitt til að koma í veg fyrir losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið frá virkjunum Orku náttúrunnar. Það er á ábyrgð okkar allra að bægja burt loftslagsvánni. Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki verða að vinna saman að mótvægisaðgerðum til að koma í veg fyrir og draga úr losun og sjá til þess að aðlaga umhverfi, orku- og veitukerfi að breyttum aðstæðum.

Í köflum sem varða loftslagsmál er gerð grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og greint frá verkefnum sem ráðist er í til að markmiðið um kolefnishlutleysi árið 2030 náist.