Ávarp forstjóra

Bjarni Bjarnason

Það má skipta sögu Orkuveitu Reykjavíkur í nokkur tímabil og um þessar mundir eru tímamót. Fram undan er skeið sem mun meðal annars mótast af grundvallarákvörðunum sem blasa við nýjum stjórnanda Orkuveitunnar, stjórn þess og eigendum.

Gróska

Fyrsti áratugurinn eftir að Orkuveita Reykjavíkur var stofnuð með samruna veitufyrirtækja Reykjavíkurborgar og orku- og veitueigna Akraness og Borgarbyggðar einkenndist af mikilli uppbyggingu og fjárfestingum. Reykjavíkurborg haslaði sér völl að nýju í raforkuvinnslu á Nesjavöllum eftir að hafa nokkrum áratugum fyrr lagt helstu virkjanir sínar inn í Landsvirkjun í sameign með ríkisvaldinu. Ýmsar sveitarfélagaveitur á Suður- og Vesturlandi voru keyptar og síðast en ekki síst var ráðist í byggingu einnar stærstu jarðvarmavirkjunar í veröldinni, Hellisheiðarvirkjunar.

Hrun

Mikið var lagt undir, fjármagn fékkst á hagstæðum kjörum, gengi krónunnar var lengst af hagstætt og lagður var grunnur að talsverðum jarðhitaumsvifum í útlöndum. Þetta leit ágætlega út þar til allt hrundi. Áður en efnahagshrunið setti skuldsetta Orkuveitu nánast á höfuðið hafði skapast gjá milli fyrirtækisins og eigenda þess þar sem valdmörk voru óskýr og umboðskeðja við mikilvægar ákvarðanir ýmist brostin eða margflækt.

Jarðtenging

Áratugurinn þar á eftir einkenndist af enduruppbyggingu. Byggja þurfti upp fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur nánast frá grunni og breyta þurfti menningu fyrirtækisins. Framan af var öll áhersla á það fyrrnefnda enda traustur fjárhagur forsenda alls annars. Miklar og ábyrgar aðhaldsaðgerðir í starfseminni hjálpuðu raunar við að byggja upp starfsanda á nýjum forsendum eftir hrunið undir merkjum nýrra gilda fyrirtækisins; hagsýni, framsýni og heiðarleika.

Jafnréttismál voru tekin föstum tökum. Í stað þess að bíða eftir því að „þjóðfélagið breyttist“ var tekin forysta um breytingar og veitti ekki af í hinum karllæga orku- og veitugeira. Hlutfall kynjanna í stjórnunarstöðum var jafnað á nokkrum misserum en um það bil þrír af hverjum fjórum stjórnendum höfðu verið karlar fram að því. Óútskýrður kynbundinn launamunur var annar heimagangur í orku- og veitufyrirtækjum. Honum var útrýmt meðal annars með upptöku nýrra framsækinna aðferða en á bak við lá einlægur vilji til að hætta slíkum mannréttindabrotum og það fljótt. Framtak Orkuveitu Reykjavíkur í jafnréttismálum varð síðan orku- og veitugeiranum á Íslandi fyrirmynd og sýndi enn fleirum að viljinn til breytinga er fyrir öllu.

Árangur

Jafnframt var horfst í augu við loftslagsvána. Þrátt fyrir fjárhagslegar þrekraunir var þróun kolefnisbindingar í jörðu haldið til streitu með að minnsta kosti þreföldum ávinningi; kolefnisspor orkuvinnslunnar hefur þegar snarminnkað, brennisteinsmengun frá orkuvinnslu á Hellisheiði er nánast úr sögunni og nú heldur Orkuveita Reykjavíkur á alþjóðlega verðmætri aðferð í baráttunni við loftslagsvána, sem mikil spurn er eftir.

Kolefnisspor í tonnum

Hlutfall kvenna meðal stjórnenda

Eiginfjárhlutfall

Kynbundinn launamunur

Skerpa þrátt fyrir uppbrot

Sveitarfélögin þrjú sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur gerðu gott betur en að leggja fyrirtækinu til víkjandi lán á afar erfiðum tíma rétt eftir hrunið. Þau settu fyrirtækinu eigendastefnu sem enn í dag, rúmum áratug síðar, er eina eigendastefna íslensks orkufyrirtækis. Hún var mikilvæg leiðsögn við enduruppbygginguna ekki síst þegar uppfylla þurfti kröfu raforkulaga um að stofna sjálfstæð dótturfélög um rafmagnsvinnslu og -sölu annars vegar og sérleyfisstarfsemi veitnanna hins vegar. Smíða þurfti nýja stjórnhætti fyrir samstæðu OR-fyrirtækja í stað eins fyrirtækis áður.

Á miðju enduruppbyggingarskeiðinu litu Veitur og Orka náttúrunnar dagsins ljós og vörumerkið Ljósleiðarinn varð til sem síðar varð heiti gagnaflutningsfyrirtækis samstæðunnar. Hvert fyrirtæki fékk sína stjórn með lagalega ábyrgð á farsæld viðkomandi reksturs. Miðstýringin, sem var afar mikilvæg þegar reisa þurfti fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur úr rústum undir merki Plansins, minnkaði. Önnur afleiðing var að mikilvægar ákvarðanir á borð við gjaldskrár sérleyfisþjónustu höfðu færst frá sveitarstjórnum, til stjórnar OR og þegar hér var komið til stjórna dótturfélaganna. Þessi þróun var eðlileg enda fjölmörg dæmi um það í sögu veiturekstursins að pólitískar ákvarðanir um einstök rekstrarmálefni reyndust ekki sem skyldi. Það dregur ekki úr því að þessi þróun er hvorki einföld né ágreiningslaus. Því þarf umræðan að vera reglubundin um það hvar jafnvægið skuli liggja á milli ákvarðana á ábyrgð eigenda Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnar móðurfélagsins, stjórna dótturfélaga og stjórnenda fyrirtækjanna.

Tímamót

Nú er hafið samtal um breytingar á eigendastefnu og stjórnarháttum Orkuveitu Reykjavíkur. Það samtal er mikilvægt af mörgum ástæðum. Sú fyrsta er að tímarnir breytast; rekstrarumhverfi breytist með nýjum opinberum kröfum eða markaðsskilyrðum, ný tækni lítur dagsins ljós eða að viðhorf til æskilegrar armslengdar milli stjórnmála og stjórnunar fyrirtækjanna breytast. Þess sjást einmitt merki í nýrri eigandastefnu Reykjavíkurborgar, sem útlistar hvernig sveitarfélagið sér fyrir að gæta hagsmuna borgarbúa gagnvart rekstri sem borgin á hlut í. Þá hafa eigendur OR nú þegar samþykkt að Carbfix verði í sameiginlegri eigu Orkuveitunnar og annarra, sem leggja munu hlutafé til metnaðarfullra og dýrra fjárfestinga í kolefnisförgun. Hvernig traust hlutverkakeðja verður byggð upp í slíku eignarhaldi er nauðsynlegt að ræða, ekki síst þar sem Ljósleiðarinn hefur verið á svipaðri vegferð. Þetta er ekki bara spurning fyrir eigendur OR heldur ekki síður fyrir stjórnendur og til marks um það er að hvort tveggja Carbfix og Ljósleiðarinn hafa ráðið eigin fjármálastjóra, þá fyrstu utan móðurfélagsins frá stofnun þess.

Þriðja þroskaskeiðið

Það eru því teikn um að þriðja skeið þroskasögu Orkuveitu Reykjavíkur sé þegar hafið. Við upphaf þess stendur fyrirtækið fjárhagslega sterkara en nokkru sinni en það blasa líka ærin verkefni við þeim sem leiða munu starfið. Það vill nefnilega svo til að á þessum tímamótum eru að verða mannabreytingar á þremur póstum; nýr forstjóri mun taka við af mér á næstunni, nýr formaður stjórnar er tekinn við eftir margra ára farsæla forystu Brynhildar Davíðsdóttur og um næstu áramót er gert ráð fyrir að nýr borgarstjóri taki við eftir meira en áratugar þátttöku Dags B. Eggertssonar í enduruppbyggingu OR, sem fulltrúi aðaleiganda fyrirtækisins.

Krefjandi verkefni

Augljósustu verkefni þeirra sem draga munu vagninn eru vitaskuld barátta gegn og aðlögun að loftslagsvánni með lokaskrefunum í átt til kolefnishlutleysis og auknum þunga í aðgerðum til stuðnings hringrásarhagkerfinu. Forysta fyrirtækjanna innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur í orkuskiptum er óumdeild og mun skipta verulegu máli um það hvernig þjóðinni tekst til.

Jafnrétti er hugtak sem fær sífellt víðtækari og mikilvægari merkingu. Vinnustaðurinn okkar verður að umfaðma jafnréttið, njóta og taka þátt í að leiða umræðu á því sviði.

Takk fyrir mig og takk fyrir ykkur

Það væri spennandi að leiða slíka vinnu á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur en mál er að linni eftir 12 ára starf sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Ég vil þakka öllu því úrvalsfólki sem starf forstjóra hefur leitt mig saman við á síðustu 12 árum og þá ekki síst öllu starfsfólki samstæðunnar fyrir samfylgdina. Ég óska nýju fólki og fyrirtækjunum öllum í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur farsældar.