Í starfsemi OR, þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur, verður til margháttuð þekking sem nýst getur öðrum. Ræðst það meðal annars af;

  • forystu Orku náttúrunnar og Veitna í jarðhitanýtingu,
  • að Veitur eru langstærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu,
  • að Ljósleiðarinn er með útbreiddasta ljósleiðaranet landsins og
  • að fjöldi nýsköpunarverkefna er unninn innan fyrirtækisins, þar sem Carbfix er einna mest áberandi.

OR lítur á það sem hlutverk sitt að miðla reynslu og þekkingu til annarra sem geta haft not af.

Elliðaárstöð.jpg

Elliðaárstöð - Yfirlitsmynd af svæðinu sem verið er að þróa.

Elliðaárstöð og Jarðhitasýningin

Við Rafstöðina við Elliðaár er verið að þróa nýjan áfangastað eftir að um aldarlangri sögu rafmagnsvinnslu þar hefur verið hætt. Í stað þess að virkja rafmagn ætlum við að búa til nýjan áfangastað í þessari einstöku náttúruperlu í hjarta Reykjavíkur og virkja fólk, hugvit og nýsköpun.

Um 5.000 gestir sóttu Elliðaárstöð heim á árinu 2022 á um 50 viðburðum, sem ýmist voru á vegum Elliðaárstöðvar eða annarra. Áfram er unnið að þróun svæðisins og skiplögðum heimsóknum skólabarna fjölgar ört.

Um árabil hefur Jarðhitasýning Orku náttúrunnar tekið á móti skólabörnum í Hellisheiðarvirkjun. Veruleg röskun varð á þessu vegna heimsfaraldursins en þá voru þróaðar rafrænar heimsóknir. Um 50.000 þúsund gestir komu á Jarðhitasýninguna 2022 og er það um helmingur gestafjöldans fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Á árinu 2022 tókst að taka upp þráðinn að nýju og rekstur Jarðhitasýningarinnar og Elliðaárstöðvar var sameinaður innan Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2022.