Saga Orkuveitu Reykjavíkur, OR, er ekki bara saga umsvifamikils fyrirtækis heldur einnig saga borgarmyndunar á Íslandi. Þær veitur sem OR rekur nú skiptu sköpum fyrir uppbyggingu og þéttbýlismyndun á höfuðborgarsvæðinu og stórbættu lífskjör íbúanna.
Án vatns- og fráveitu og síðar rafveitu hefði nútíminn ekki hafið innreið sína. Það var mikið átak á sínum tíma að leggja grunn að þessum kerfum, þótt þau hafi verið smá í sniðum miðað við þau sem nú eru í notkun.
Síðan hafa fjölmörg mikilvæg skref verið tekin og sum ansi djörf. Hitaveitan var risavaxið verkefni á sínum tíma og óumdeilanlega mikið gæfuspor. Fyrst var byggt á nýtingu lághitasvæða en síðar tókst að beisla háhitasvæði í Henglinum, bæði fyrir hitaveitu og rafmagnsframleiðslu. Öll þessi verkefni voru ekki bara risavaxin fjárhagslega á hvers tíma mælikvarða heldur einnig á mörkum þess sem þá var tæknilega viðráðanlegt.
Fyrir bráðum aldarfjórðungi tók forveri Ljósleiðarans til starfa. Það skipti sköpum fyrir uppbyggingu á fjarskiptakerfi landsmanna og tryggði bæði að byggt var á nýjustu tækni og harðri samkeppni. Fyrir vikið er aðgangur íbúa og fyrirtækja að háhraða nettengingum nú eins góður og best þekkist. Sá markaður er enn og verður áfram í örri þróun og uppbyggingu.
Nýjasta dótturfyrirtæki OR ræðst ekki frekar en önnur á garðinn þar sem hann er lægstur. Carbfix er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og notkun lausna til að takast á við hnattræna hlýnun. Það er í góðu samræmi við fyrri skref sem hafa verið tekin innan OR til að bæta búsetuskilyrði og lífskjör með hugvit að vopni.
Saga OR og forvera fyrirtækisins er þannig samofin sögu lífskjarabyltingar á Íslandi í meira en heila öld. Það á enn við. Starfsemi OR skiptir íbúa á starfsvæði fyrirtækisins, raunar landsmenn alla, miklu máli og mun gera það áfram.
Um þessar mundir verða töluverðar breytingar á forystu OR. Á síðasta ári tók við ný stjórn og á þessu ári tekur Sævar Freyr Þráinsson við sem forstjóri af Bjarna Bjarnasyni. Bjarni tók við starfinu við einstaklega erfiðar aðstæður fyrir rétt um 12 árum. Hrun fjármálakerfisins og krónunnar árið 2008 hafði leikið efnahag OR grátt. Eigið fé hafði nánast þurrkast út í þeim sviptingum. Leita þurfti til eigenda til að afla fyrirtækinu lánsfjár og leita allra leiða til að draga úr kostnaði. Það tókst með samhentu átaki stjórnenda og starfsmanna OR og stuðningi eigenda að leiða fyrirtækið út úr þessum vanda. Nú er fjárhagurinn sterkari en nokkru sinni fyrr og eigið fé orðið um 246 milljarðar króna, sem er aukning um meira en 200 milljarða frá því sem það var minnst eftir hrun.
Viðsnúningurinn er því ótrúlegur og styrkur OR mikill til að takast á við þær áskoranir sem eru framundan. Þær eru miklar og er m.a. gert ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 184 milljarða tímabilið 2023 til 2027. Þær verða á öllum sviðum starfseminnar. Fjölgun íbúa kallar alltaf á fjárfestingar í innviðum en auknar kröfur í umhverfismálum, m.a. orkuskipti og uppbygging Carbfix, skipta einnig miklu.
Á árinu 2022 hélt stjórn Orkuveitu Reykjavíkur 14 fundi. Eftir að fundahald breyttist vegna kórónuveirufaraldursins hafa flestir stjórnarfundir verið blandaðir, það er stjórnarfólk hefur ýmist verið á fundarstað eða mætt í gegnum fjarfundabúnað. Sú regla er orðin að undirskriftir stjórnarfólks eru allar orðnar rafrænar. Auk fundanna hélt stjórn starfsdag í febrúar þar sem meðal annars fór fram reglubundið mat stjórnar á eigin störfum. Árlegt mat á störfum forstjóra var einnig gert.
Eigendafundir á árinu voru óvenjumargir eða fimm. Í febrúar og ágúst var fundað vegna breytinga á félagaskipan og eignarhaldi á Carbfix, reglubundinn eigandafundur um fjármál var í desember og aðalfundur var tvískiptur. Ástæðan voru breytingar Reykjavíkurborgar á meðferð eignarhalds borgarinnar í fyrirtækjum. Var því lýsingu á kjöri stjórnar frestað frá aðalfundi, sem haldinn var í apríl, til framhaldsaðalfundar í desember.
Fram að framhaldsaðalfundi var Dr. Brynhildur Davíðsdóttir formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur en baðst undan endurkjöri. Þá hafði hún setið samfellt í stjórn fyrirtækisins frá árinu 2011 og verið formaður frá árinu 2016. Um leið og stjórnarfólki, stjórnendum og starfsfólki öllu í Orkuveitusamstæðunni eru færðar þakkir fyrir gott starf á árinu 2022, vil ég þakka Brynhildi sérstaklega fyrir langt og gott samstarf á vettvangi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Þá færi ég einnig Bjarna Bjarnasyni þakkir fyrir samstarfið undanfarin ár og hans þátt í að leiða fyrirtækið út úr miklum vanda og til þess styrks sem það nýtur í dag.