Jafnréttisstefna OR tekur til mannréttinda samkvæmt þeim þáttum sem tilgreindir eru í stjórnarskrá Íslands. Í siðareglum fyrirtækisins er einnig sérstakur kafli helgaður mannréttindum og jafnrétti. Fræðsla um þetta efni er reglubundin. Vorið 2018 gekkst OR samstæðan fyrir vinnustofum með skylduþátttöku alls starfsfólks um #metoo byltinguna og merkingu hennar fyrir vinnustaðarmenningu OR samstæðunnar. Á árinu 2019 voru vinnustofur með starfsfólki til undirbúnings nýs samskiptasáttmála samstæðunnar. Hann var gefinn út 2020.
OR hefur skráð verklag til að bregðast við telji starfsfólk eða starfsfólk verkataka sig verða fyrir óviðeigandi hegðun eða samskiptum á vinnustað. Þar eru boðleiðir skýrðar og þau úrræði sem OR býður þeim sem fyrir slíku verða standa til boða. Þetta verklag, sem kynnt er starfsfólki, hefur tilvísun í viðbragðsáætlun OR við einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Í kafla F6 um aðgerðir gegn mismunun má sjá niðurstöðu árlegrar könnunar á einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustaðnum.
Á árinu 2021 gaf fyrirtækið út siðareglur fyrir birgja OR, sem byggðar eru á innkaupastefnunni og tíu grundvallarreglum Global Compact, sem OR á aðild að. Samhliða var mótað verklag um viðbrögð OR við upplýsingum um frávik.
Kröfur samsvarandi siðareglunum er að finna í skilmálum allra útboða á vegum OR og markmið OR með útgáfu siðareglnanna er að þær sjálfbærnikröfur sem gerðar eru í útboðum nái einnig til smærri birgja.
Birgjar OR skulu gera samsvarandi kröfur til sinna birgja.
Í árslok 2022 hafði 121 birgi staðfest að þeir hlíttu siðareglunum.
Á árinu 2022 voru 59% innkaupa samstæðunnar að undangengnu útboði. Samsvarandi hlutfall 2021 var 56% og 61% árið 2020.