Stjórnhættir OR eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum. Um meginstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur gilda lög nr. 136/2013. Á árinu 2014 endurnýjuðu eigendur fyrirtækisins sameignarsamning um starfsemina. Þá var einnig endurskoðuð eigendastefna. Í þeim er kveðið á um stjórnhætti. Við gerð þessara skjala, samþykkta fyrir dótturfélög OR og starfsreglur fyrir allar stjórnir, var tekið mið af þeim leiðbeiningum sem Viðskiptaráð vann í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Nasdaq.
OR telur að stjórnarhættir fyrirtækisins uppfylli leiðbeiningarnar.
Á árinu 2022 samþykkti Reykjavíkurborg, stærsti eigandi Orkuveitu Reykjavíkur, almenna eigandastefnu sem tekur mið af leiðbeiningum OECD um stjórnhætti fyrirtækja í opinberri eigu. Með stefnunni er mörkuð stefna um eignarhald Reykjavíkurborgar ásamt því að skerpa á meðferð eignarhluta í stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Reykjavíkurborg hefur forystu um innleiðingu stefnu sinnar gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur.