Veitur reka þrettán hitaveitur; eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi, sjá yfirlit í viðauka. Hitaveiturnar þjóna um 2/3 hluta þjóðarinnar. Árið 2022 var vinnsla á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og dreifisvæðum á landsbyggðinni í samræmi við skilgreiningu og markmið fyrirtækisins og ákvæði í lögum og reglugerðum.
Ábyrg neysla á heitu vatni
Hitaveitan sló í gegn haustið 2022 þegar vakin var athygli á því að heitt vatn til húshitunar eru ekki óþrjótandi náttúrugæði. Fólk áttar sig nú betur á en áður að forgangsraða þarf jarðhita í þágu húshitunar fyrir lífsgæði á Íslandi. Í kuldatíð hafa Veitur hvatt fólk til að fara vel með heita vatnið, ekki kynda híbýli sín óþarflega mikið og hafa glugga lokaða.
Höfuðborgarsvæðið
Sumarið 2022 var heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum veitt til alls höfuðborgarsvæðisins frá júní fram í september. Þessi vatnsskipti stóðu yfir í lengri tíma en gert hefur verið áður. Með þessari aðgerð var létt á vinnslu úr lághitasvæðum á Reykjum, í Reykjahlíð, Laugarnesi og Elliðaárdal sem gerði það mögulegt að safna meiri forða í lághitasvæðunum fyrir veturinn. Áframhald verður á þessum aðgerðum næstu sumur til að minnka sumarvinnslu úr lághitasvæðunum og nýta betur þann varma sem framleiddur er í virkjunum, sjá einnig umfjöllun í kafla um nýsköpun í loftslags- og umhverfismálum.
Eftir milt haust brast á með langvarandi frosthörkum í desember sem jók álag á hitaveituna. Sögulegt hámark varð í rennsli hitaveitu því aldrei hafa fleiri íbúðir þarfnast hitans í svo miklum kulda. Gripið var til þess ráðs að auka dælugetu á Reynisvatnsheiði og hækka tímabundið hita á heitu vatni sem kemur frá virkjunum Orku náttúrunnar. Unnið er að undirbúningi þess að stækka dælur í öflugum holum á lághitasvæðunum á næstu misserum til að auka afkastagetu þegar álag á hitaveituna er í hámarki. Lokið er heildarendurskoðun áætlana um framtíð hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu til að tryggja afhendingaröryggi næstu áratugi. Horft er til aukinnar varmavinnslu í Hellisheiðarvirkjun, fyrirhugaðrar virkjunar HS-Orku í Krýsuvík og til nýrra lághitasvæða á höfuðborgarsvæðinu.
Frá árinu 2018 hafa staðið yfir rannsóknir sem snúa að sameiningu hitaveitukerfis höfuðborgarsvæðisins þannig að unnt sé að blanda saman lághitavatni og heitu vatni frá virkjunum án myndunar útfellinga, sjá umfjöllun að ofan. Rannsóknir lofa góðu og hafa þegar nýst vegna vatnaskipta og sumarhvíldar lághitasvæða á höfuðborgarsvæðinu, sjá að ofan. Takist verkefnið mun það gjörbreyta rekstrarfyrirkomulagi hitaveitunnar og varmaframleiðslu virkjana. Áætlað er að rannsóknarhluta verkefnisins ljúki 2024.
Vesturland
Ástand lághitasvæða á Vesturlandi er almennt gott. Sívaxandi eftirspurn hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar (HAB) veldur því að veitan stendur tæpt í hámarksálagi en borun nýrrar holu við Hellur í Bæjarsveit á að veita nauðsynlegt viðbótarafl til að bæta stöðuna þar umtalsvert. Vegna álags í kuldatíðinni í desember þurftu Veitur að skerða heitt vatn til sundlauganna á Akranesi og í Borgarnesi. Lokið er heildarendurskoðun áætlana um framtíð HAB til að tryggja afhendingaröryggi næstu áratugi. Horft er til þess að leita að heitavatnsforða nær byggðakjörnum en einnig sækja forða í Bæjarsveit og að Kleppjárnsreykjum.
Suðurland
Á Suðurlandi hefur framleiðslugeta verið aukin í Grímsnesveitu með virkjun nýrrar holu.
Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar m.a. þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli. Í byrjun árs 2023 verður dælugeta aukin með nýrri djúpdælu í Laugalandi til að auka toppafl hitaveitunnar fyrir þau svæði þar sem eftirspurnin er mest. Frekari verkefni eru í undirbúningi, til dæmis að bæta flutningsgetu frá Kaldárholti til Laugalands og leita að heitavatnsforða.
Vegna álags í kuldatíðinni í desember þurftu Veitur að skerða heitt vatn til sundlauganna á Laugalandi, Hellu og Hvolsvelli.