Í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi, er leitað leiða til að auka fjölbreytta notkun á varma, rafmagni, vatni og jarðhitalofttegundum frá virkjuninni. Fjölbreytt notkun jarðhitans getur aukið hagkvæmni og eflt umhverfisvænan rekstur og nýsköpun í atvinnulífi. Yfirlit yfir orkutengda auðlindastrauma sem unnt er að nýta í starfsemi í Jarðhitagarði sést á myndinni.
Meiri kolefnisförgun úr andrúmslofti
Svissneska nýsköpunarfyrirtækinu Climeworks gekk vel að fanga CO2 úr andrúmslofti í Jarðhitagarði ON á árinu. Samið var við ON um mitt ár um aukin umsvif og nýja einingu sem afkastar tífalt á við þá sem fyrir er. Mammoth er heiti nýja versins sem einnig nýtir Carbfix aðferðina við förgun kolefnisins í jarðlögum. Samanlögð afköst Climeworks verða 44.000 tonn koldísoxíðs á ári innan nokkurra missera. Þetta samsvarar losun um 10.000 brunabíla.
Vetnisframleiðsla
Orka náttúrunnar framleiðir vetni við Hellisheiðarvirkjun í tilraunaskyni sem hófst sem hluti af þróunarverkefni á vegum Evrópusambandsins, Hydrogen Mobility Europe. Orkuframleiðsla í virkjuninni er nýtt til vetnisframleiðslu á þeim tímum sem minni eftirspurn er eftir rafmagni og nýtist vetnið fyrir almenning og atvinnulíf vegna orkuskipta í samgöngum.
Vetni hefur verið framleitt í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2020 og er ennþá eini rafeldsneytisframleiðandinn í landinu. Vetni getur nýst eitt og sér til að knýja farartæki eða blandað við koltvísýring í metanól eða skylda framleiðslu.
Örþörungaframleiðsla
Alþjóðlega hátæknifyrirtækið VAXA Technologies óx sem sproti í Jarðhitagarði ON. Fyrirtækið nýtir orkutengd aðföng í smáþörungaverksmiðju. Smáþörungar eru nýttir til fóðurs og fæðubóta fyrir dýr og menn. Fyrirtækinu hefur gengið vel, aukið framleiðslu sína töluvert og hyggur á skráningu hlutabréfa á markað í Bandaríkjunum.
Vöruþróun með Veitum
Veitur, systurfélag Orku náttúrunnar, reka meðal annars a hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu og sækja meira en helming heita vatnsins í hana til virkjana ON á Nesjavöllum og Hellisheiði. Hitaveituvatni beint úr jörðinni frá lághitasvæðum og vatninu frá virkjununum þarf að halda aðskildu í hitaveitunni vegna hættu á útfellingum sem geta stíflað lagnir. Í Jarðhitagarði ON er nú unnið að nýsköpunar- og þróunarverkefni undir stjórn vísindafólks Orkuveitu Reykjavíkur þar sem leitað er leiða til að breyta eiginleikum heita vatnsins, sem frá virkjununum kemur, þannig að óhætt sé að það blandist við lághitavatnið. Ávinningur þessa er margþættur, meðal annars betri nýting vatns í hitaveitunni, auðveldara verður að hvíla hin náttúrulegu lághitasvæði þegar þörf krefur, rekstur hitaveitunnar verður allur einfaldari og magnesíumsílíkötin, sem felld eru úr vatninu eru markaðsvara til alls kyns efnavinnslu.
Sjálfbær starfsemi
Ríkar kröfur eru gerðar til fyrirtækja sem ætla að starfa í Jarðhitagarði ON vegna vatnsverndar, ásýndar, ónæðis og umgengni. Á byggingatíma verkefna er gerð krafa um endurnýtingu gróðurþekju sem fellur til. Hún er notuð í frágang þegar jarðvinnu lýkur eða nýtt annars staðar þar sem hennar er þörf. Viðskiptaþróun baðlóns í Hveradölum stendur yfir og Orka náttúrunnar fær fjölda fyrirspurna frá áhugasömum aðilum um uppbyggingu nýrrar starfsemi í Jarðhitagarði ON.