Vatnsvernd og ábyrg vinnsla

Árið 2022 tryggðu vatnsveitur Veitna íbúum og fyrirtækjum á veitusvæðinu heilnæmt neysluvatn sem samræmist gæðastöðlum, ákvæðum laga og reglna og markmiðum Veitna.

Vatnsból Veitna eru fimmtán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjónar alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst hefur verið unnið að vatnsvernd, öðrum forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins. Stöðugra umbóta er þörf vegna verklags við tengingar lagna og útskolanir í dreifikerfum Veitna, sjá yfirlit í viðaukum.

Gæði neysluvatns í Reykjavík 2003-2022

Gæði neysluvatns á landsbyggðinni 2022

Á Vesturlandi voru vatnsvinnsluholur á Seleyri við Borgarfjarðarbrú endurnýjaðar sumarið 2022 til að tryggja vatnsöflun frá svæðinu til framtíðar. Verða holurnar teknar í notkun á næstu árum. Tilraunahola var boruð í Grábrókarhrauni til að kanna hvort breytt holuhönnun geti minnkað fínefni í vatninu sem hefur verið vandamál frá upphafi. Einnig var farið í endurbætur á tækjabúnaði í vatnsbólinu sem bætti stöðuna.

Þétt net vatnshæðarmæla er í eftirlitsholum vatnsstökusvæða Veitna á höguðborgarsvæðinu. Undirbúningur fyrir rannsóknarboranir í Bláfjöllum fór fram á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en tilgangur þeirra er að ákvarða betur vatnaskil á svæðinu og þar með aðrennslissvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins. Áfram er unnið að verkefnum til að þekkja betur tengsl umhverfisþátta, örverumengunar og loftslagsbreytinga. Fylgst var með mögulegum áhrifum eldgossins sem hófst árið 2022 í Geldingadölum á vatnsgæði í Heiðmörk en ekki varð vart við merkjanlegar breytingar á gæðum neysluvatns.

Frumgreiningu lauk á áhrifum vinnsluaukningar á grunnvatni við Engidalskvísl við Hellisheiðarvirkjun á vatnafar á svæðinu. Hafin er skoðun á möguleikum til aukinnar kaldavatnsöflunar á öðrum svæðum í nágrenni virkjunarinnar. Aukin eftirspurn eftir köldu vatni við Hellisheiðarvirkjun er fyrirsjáanleg vegna stækkunar varmastöðvar og eftirspurnar frá viðskiptavinum jarðhitagarðs Orku náttúrunnar.

Til að tryggja vatnsgæði hefur frá árinu 2018 verið settur upp búnaður til að lýsa vatnið úr vatnsbólum Veitna, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og stendur sú vinna enn yfir. Með því eru örverur, sem geta borist í vatnsbólin í leysingum, gerðar óvirkar áður en vatninu er veitt út í dreifikerfið.

Sjá yfirlit yfir verkefni í viðaukum.

Vatnsvernd

Vatnsverndarsvæði eru afmörkuð utan um vatnsból Veitna og Orku náttúrunnar. Fylgst er með vatnsverndarsvæðum, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum í Heiðmörk. Slys og atvik vegna hættulegrar hegðunar innan vatnsverndarsvæða eru skráð, fjallað um þau og ráðist í úrbætur eftir því sem við á. Til að fyrirbyggja mengunarslys tekur starfsfólk Veitna, Orku náttúrunnar og verktakar sem vinna að framkvæmdum á vatnsverndarsvæðum umhverfisnámskeið áður en framkvæmd hefst. Þessi krafa er sett fram útboðsgögnum.

Til að minnka hættu á olíu- og efnaslysi á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins hafa Veitur átt samráð við Vegagerðina, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna. Þar má nefna endurbætur á Suðurlandsvegi, uppbyggingu athafnasvæðis á Hólmsheiði, lokanir og úrbætur á vegum innan vatnsverndarsvæðisins ásamt því að gera frekari grunnvatnsrannsóknir á svæðinu.