Nýsköpun í loftslags- og umhverfismálum

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Líf á landi Alþjóðleg samvinna

OR samstæðan hefur verið í fararbroddi í nýsköpun og þróun á sviði loftslags- og umhverfismála undanfarinn áratug. Skýr dæmi um það eru:

  • Minni losun koltvíoxíðs og brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun með bindingu þessara jarðhitalofttegunda í stein. Sambærilegt verkefni á tilraunastigi hefst við Nesjavallavirkjun 2023
  • Samstarf við svissneska fyrirtækið Climeworks um hreinsun og bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti á Hellisheiði.
  • Aðstöðusköpun vegna orkuskipta í samgöngum með uppsetningu á hlöðum fyrir rafbíla.
  • Vetnisframleiðsla við Hellisheiðarvirkjun, sem er eina starfandi rafeldsneytisvinnsla í landinu.

Fjöldi samstarfssamninga

Unnið er samkvæmt fjölda samstarfssamninga og -áætlana um vísindi og tækni við háskólasamfélagið innanlands og erlendis. Samstarf atvinnulífs, háskólasamfélagsins og sveitarfélaga er oftar en ekki forsenda þess að hugmyndir geti þróast yfir í raunveruleg verkefni sem nýtast atvinnulífinu.

Dæmi um slík verkefni sem unnið er að hjá OR samstæðunni og vonir eru bundnar við:

  • Sporlaus vinnsla jarðhita
  • Þróun á bindingu koltvíoxíðs með Carbfix-aðferðinni með því að nota sjó í stað ferskvatns
  • Hlöðum betur. Rannsókn á því hvernig fólk hleður og notar rafbíla og álagsstýring dreifikerfa á stórum skala
  • Vetnisframleiðsla á Hellisheiði
  • Bætt auðlindanýting á háhitasvæðum með blöndun upphitaðs grunnvatns frá jarðvarmavirkjunum við heitt vatn úr lághitasvæðum
  • Bætt auðlindanýting á lághitasvæðum til framtíðar
  • Djúpborun
  • Stjórnun örvaðrar skjálftavirkni
  • Gæði vatns og betri yfirsýn yfir dreifikerfi
  • Nýting á fráveituúrgangi

Sjá nánar í viðauka.

Tímamót

Í lok árs 2022 tók gildi ný reglugerð um geymslu koldíoxíðs. Á vef umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins kemur fram að með reglugerðinni sé tilskipun um geymslu koldíoxíðs í jörðu að fullu innleidd í íslenskan rétt. Það skiptir miklu máli fyrir Carbfix, Orku náttúrunnar og önnur fyrirtæki sem vinna að förgun í bergi.

Árið 2022 hlaut Carbfix 16 milljarða króna styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins til uppbyggingar á móttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda Terminal (Sódastöðinni) í Straumsvík. Miðstöðin verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og er áætlað að starfsemi hefjist um mitt ár 2026 og nái fullum afköstum árið 2031. Þessu tengt var í desember 2022 undirrituð viljayfirlýsing um uppbyggingu Coda Terminal á milli Carbfix, Coda Terminal, Hafnarfjarðarbæjar og Rio Tinto á Íslandi.

Rannsóknir sem snúa að sameiningu hitaveitukerfis höfuðborgarsvæðisins þannig að unnt sé að blanda saman lághitavatni og heitu vatni frá virkjunum án myndunar útfellinga lofa góðu. Þær hafa þegar nýst vegna vatnaskipta og sumarhvíldar lághitasvæða á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið mun gjörbreyta rekstrarfyrirkomulagi hitaveitunnar og varmaframleiðslu virkjana.

7 okt

Vísindasjóður OR

Á árinu 2022 var hátt í 100 milljónum króna varið til vísindarannsókna í gegnum nýstofnaðan Vísindasjóð OR, VOR. Tilgangur sjóðsins er þríþættur:

  • Að styðja við framtíðarsýn OR sem er að auka lífsgæði með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
  • Að styrkja rannsóknir meistara og doktorsnema sem tengjast starfssviði og áherslum OR.
  • Að stuðla og styrkja rannsóknir á starfssviði OR með sérstakri áherslu á þau heimsmarkmið sem eru í forgangi hverju sinni í samræmi við stefnu OR.

OR leggur sérstaka áherslu á fimm af Heimsmarkmiðunum 17: Sjálfbær orka, Jafnrétti kynjanna, Hreint vatn og hreinsætisaðstaða, Ábyrg neysla og framleiðsla og Aðgerðir í loftslagsmálum.

Hér má sjá hvaða verkefni hlutu styrk árið 2022.

Snjallmælar Veitna

Eitt umfangsmesta fjárfestingaverkefni Veitna er innleiðing snjallmæla sem mæla orkunotkun viðskiptavina með reglulegu millibili og senda upplýsingarnar sjálfkrafa til Veitna. Mælarnir geta einnig greint bilanir og ástand kerfisins.

Verkefnið nær til áranna 2022-2025 og umhverfisábatinn felst meðal annars í því að ferðum starfsfólks Veitna til viðskiptavina stórfækkar, viðskiptavinir eiga auðveldara með að stýra notkun sinni og spara í ljósi tíðari notkunarupplýsinga og Veitur fá færi á markvissari stýringu rafveitunnar og hitaveitunnar.